Ráðstafanir Þekkingar vegna COVID-19 / Nánar hér

Þekking styður við þróunaraðstoð í Afríku í samvinnu við Rauða krossinn

Þekking styður við þróunaraðstoð í Afríku í samvinnu við Rauða krossinn

Þekking og Rauði krossinn á Íslandi hafa gert með sér samstarfssamning og felst hann í stuðningi Þekkingar við alþjóðlegt þróunar- og hjálparstarf Rauða krossins. Um er að ræða verkefni sem ber yfirskriftina „Brúun hins stafræna bils“. Þekking mun aðstoða við að veita aðstoð í þróunarríkjum til að brúa bil sem hefur myndast í upplýsinga- og samskiptatækni til að efla getur til hjálparstarfa.

Samstarfssamningurinn er til tveggja ára og felur í sér að Þekking lánar starfsmann með sérþekkingu í upplýsinga- og samskiptatækni til að sinna verkefnum sendifulltrúa í verkefninu.

Ánægja að geta stutt við hjálparstarf

„Það er mikið ánægjuefni hjá Þekkingu að geta með einhverju móti stutt við hjálpar- og þróunarstarfsemi Rauða krossins. Þekking hefur löngum stutt við hin ýmsu samfélagsverkefni innanlands, má þar nefna björgunarsveitirnar og með því að styðja mismunandi málefni í Reykjavíkurmaraþoninu. Það var því augljóst framhald á því þegar að hann Tómas Dan Jónsson, starfsmaður á okkur á viðskiptaþróunar- og ráðgjafarsviði, benti okkur á þetta verkefni. Við erum ákaflega stolt af því að geta boðið sérþekkingu fyrir þetta verkefni,“ segir Stefán Jóhannesson, framkvæmdastjóri Þekkingar.

Nú þegar hafa starfsmenn frá Íslandsbanka farið í nokkrar sendiferðir undir yfirskrift verkefnisins, og nú síðast fór starfsmaður Sýn til Ghana. Starfsmenn frá Reiknistofu bankanna og Þekkingu eru næstir á lista, en Utanríkisráðuneytið, sem styrkir verkefnið, leggur áherslu á að fyrirtæki í íslensku atvinnulífi taki virkan þátt í fjölbreyttri þróunaraðstoð.

Mannúðaraðstoð háð tækni

„Þetta er mjög mikilvægt verkefni. Í mörgum ríkjum ríkjum Afríku búa Rauða kross félög við svo bágan kost að það er ekki nein nettenging í deildum þar sem sjálfboðaliðar sinna lífsbjargandi hjálparstarfi eða þá að hún er mjög óstöðug,“ segir Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri hjálpar- og mannúðarsviðs Rauða krossins en verkefninu er meðal annars ætlað að bæta úr þessu.

„Það þarf að vera tryggt að unnt sé að senda mikilvægar upplýsingar sem varða hjálparstarf Rauða krossins svo öruggt sé að nauðsynleg hjálpargögn séu til staðar og að mannúðaraðstoð sé í samræmi við þarfir skjólstæðinga á vettvangi og berist eins skjótt og völ er á,“ segir Atli Viðar og bætir við að mikil ánægja sé hjá Rauða Krossinum með samstarfið við Þekkingu.

Aðspurður sagðist Tómas Dan vera rosalega spenntur. ,,Ég er að fara yfir þau verkefni sem landsfélögin vinna að og hvernig við getum aðstoðað þau við brúa það stafræna bil sem hindrar þau í að sinna þeim. Það er ekki oft sem maður fær tækifæri til þess að gefa af sér en ég er þakklátur fyrir að vera treyst fyrir verkinu, bæði af Rauða kross Íslands sem og af Þekkingu.“

Brúun hins stafræna bils er eitt af langtímaþróunarverkefnum Rauða krossins sem einnig er stutt af Utanríkisráðuneytinu, Íslandsbanka, Reiknistofu bankanna, Sýn og fleiri íslenskum fyrirtækjum og unnið í samvinnu við Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans.