Ráðstafanir Þekkingar vegna COVID-19 / Nánar hér

Þekking í 20 ár

Þekking er 20 ára um þessar mundir

Þekking stendur á tímamótum og fagnar fyrirtækið 20 ára afmæli um þessar mundir. Það var upphaflega stofnað út frá tölvudeild KEA á Akureyri 1. nóvember 1999. Segja má að Þekking hafi verið ákveðinn brautryðjandi í rekstri tölvukerfa og framúrskarandi þjónustu, sem voru nýjungar fyrir 20 árum. Í dag er Þekking mjög öflugt fyrirtæki og rótgróið í kerfisstjórnunargeiranum með sterkar starfsstöðvar á tveimur stöðum á landinu, í Kópavogi og á Akureyri.

Þekking hf. er þjónustufyrirtæki á sviði upplýsingatækni sem sérhæfir sig í rekstri tölvukerfa og þjónustu auk þess að bjóða fyrirtækjum kerfisleigu, hýsingu, internetþjónustu og gagnaflutninga auk margs konar sérlausna, ráðgjafar og kennslu. Hjá fyrirtækinu starfa hátt í 70 manns en að undanförnu hefur fyrirtækið verið að bæta við sig starfsfólki bæði á Akureyri og í Kópavogi. Kynjahlutföllin eru áhugaverð en óvenju margar konur starfa hjá fyrirtækinu miðað við hlutföll almennt í tölvugeiranum.

Á 20 árum hafa orðið miklar breytingar á sviði upplýsingatækni og öryggismála. Áður voru tölvukerfi að hrynja mjög reglulega og gagnalekar voru algengir. Öryggismálin snérust þá mikið um „að eiga backup“. Menn þurftu jafnvel að taka með sér diska heim til öryggis. Þetta hefur gjörbreyst og mikil þróun hefur orðið í netöryggi í dag.

Meðal þess sem starfsmenn Þekkingar sáu gjarnan um í upphafi var að koma í fyrirtæki og loka á netsíður starfsmanna. Þeir máttu þá til dæmis ekki vera á síðum eins og Mbl., Vísi eða Facebook. Jafnframt má nefna að fyrir einungis nokkrum árum þurftu starfsmenn Þekkingar að fara í fyrirtæki til að yfirfara tölvur en í dag er hægt að „taka tölvurnar yfir“ og yfirfara þær þannig.

Í september síðastliðnum urðu Þekking, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Landspítalinn háskólasjúkrahús sigurvegarar í Media Management Award, en verkefnið var leitt af Þekkingu og vinnuhópum frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og Landspítala háskólasjúkrahúsi og þótti sýna „framúrskarandi útfærslu á meðferð viðkvæmra gagna“.

Við erum stolt af sögunni og þróun fyrirtækisins þessi 20 ár en Þekking er nú í fremstu röð fyrirtækja í þessum geira og horfum við bjartsýn til framtíðar.