Letin kennir lötum manni…

Leitin kennir lötum manni

Við sem mannskepnan erum löt. Ég skal umorða: Við reynum að hámarka þann tíma sem við getum eytt í það sem okkur finnst skemmtilegt að gera eða erum góð í með því að lágmarka þann tíma og þá vinnu sem fer í að gera aðra tímafreka leiðinlega hluti. Þetta er hins vegar ekki endilega slæmt og hefur letin hjálpað lötum manni við framþróun í flestum ef ekki öllum atvinnugreinum og einnig við margvísleg dagleg verkefni, s.s. að ryksuga og vaska upp, sem nú eru unnin á heimili mínu af sjálfvirku heimilistæki. Ef við skoðum þetta samt nánar í samhengi við þá atvinnugrein sem ég þjónusta mikið, smásölu, er greinilegt að þetta hefur spilað þónokkuð stóra rullu í framþróun í greininni og mun halda áfram að gera það. 

Búðarkassar og vöruhillur koma til sögunnar 

Árið 1879 verður bylting í smásölu þegar fyrsti búðarkassinn var fundinn upp. Hann var í raun bara leið til þess fyrir James Ritty, sem rak þá verslun, til þess að heyra þegar að sala ætti sér stað svo hann gæti komið í veg fyrir stuld starfsmanna. Hann nennti nefnilega ekki að vera inn í versluninni sinni að fylgjast með. Reyndar átti búðarkassinn einnig stóra rullu í því að búa til þau verð sem eru notuð enn þann daginn í dag, þ.e. að verð endi á 9 eða 5 til þess að þvinga að gefa þyrfti afgang.  

Í byrjun 20. aldarinnar varð sú framþróun í smásölu að verslunareigandur fóru að setja vöruúrvalið sitt upp í hillur, í stað þess að sækja vörur fyrir neytanda eftir fyrirspurn þess síðari. Frank Woolworth hét sá maður sem á heiðurinn að fyrstu versluninni með þessu sniði og má áætla að hann hafi hreinlega ekki nennt að sækja vörurnar. Sögur herma líka að hann hafi verið afleitur sölumaður og álitið að vörur ættu hreinlega að selja sig sjálfar. Það má áætla að þetta hafi verið fyrsta skref sjálfsafgreiðslunnar.  

Og síðan kreditkort og skannar… 

Í kringum 1920 birtast fyrstu kreditkortin sem lausn á því hvimleiða vandamáli að þurfa að fara í bankann til að taka út pening. Um þetta leyti fóru verslanir að auka úrvalið sitt og kaupmaðurinn á horninu fór að hverfa. Þessi þróun fór hönd í hönd með fjölda bíla en einnig aukinnar kælitækni. Fólk tók ekki lengur bara það sem það gat borið heim til sín heldur allt sem þeim vantaði og þar með fæddist innkaupakarfan. 

Alls konar þróun átti sér stað á næstu áratugum, til að mynda rýmri opnunartími, verslunarmiðstöðvar og rafrænir búðarkassar, þar til næsta stóra framþróunin (að mínu mati) gerðist árið 1974 þegar að Wrigley‘s tyggjópakki var skannaður í fyrsta skipti. Þessi framþróun var að öllum líkindum drifin af þeirri staðreynd að fram til þessa hafði kassastarfsmaðurinn þurft að reiða sig á að varan væri merkt með réttu verði eða hann þurft að vita nákvæmlega verðið á öllum vörunum fyrirfram. Með auknu framboði varð þetta sífellt erfiðara. 

Netsala og sjálfsafgreiðsla líta dagsins ljós 

Árið 1994 var svo loksins hægt að panta á netinu, en þá var fyrsta flatbakan pöntuð á netinu.  Pepperóní, sveppir og aukaostur. Síðan þá hefur sífellt aukist í flóruna af þeim hlutum sem við getum verslað á netinu. Núna í dag er svo komið að við getum nánast fengið hvað sem er heim til okkar, á meðan að við sitjum í hægindastólnum okkar, skipum Alexu, Siri, eða hvað þær nú allar heita, til að panta þá vöru sem við viljum fá, sem við síðan greiðum með því að horfa á símann okkar á meðan að hann greinir andlitsdrættina þína og sannreynir lífkennin þín með einum eða öðrum hætti. 

Ef við svo förum á annað borð í hefðbundnar verslanir þessa dagana náum við sjálf í vörurnar okkar eins og við höfum gert áratugum saman núna, setjum þær í innkaupakerruna okkar, eins og við höfum gert áratugum saman, þá getum við nú ákveðið hvort við förum í röð á hefðbundnum kassa eins og við höfum gert áratugum saman, eða tökum sjálfsafgreiðsluna á næsta stig og förum á sjálfsafgreiðslukassann, og greiðum svo fyrir annaðhvort með kreditkortinu okkar eða símunum. Skundum svo út í bílinn okkar og keyrum heim, sjálf, allaveganna í bili. 

Amazon kom nýlega út með verslun þar sem engir kassar eru. Þeir vita hver þú ert og þú greiðir fyrir það sem þú tekur úr versluninni. Hugsanlega er það framtíðin, en vissulega skapar það spurningar um persónuupplýsingar og geymslu þeirra. Með aukinni þörf fyrir umhverfisvitund er líka hægt að spyrja sig hvort það sé ekki hreinlega betra að notast við þjónustur á borð við Eldum rétt og fáum þá hráefnin sem við þurfum beint heim til okkar og sleppum ferðinni í verslunina. 

Og framtíðin

Hér er gott að staldra við og spyrja sig, hver er svo framtíðin? Hvert geta hlutirnir farið héðan? Ég tel til að mynda að það séu enn mikil tækifæri til að gera sjálfsafgreiðsluna einfaldari, meðal annars með upptöku RFID í stað strikamerkja, aukinnar myndagreiningu fyrir ferskvöru, tilkomu eigin verðskanna t.d. með snjallforritum sem og aukin viðskiptavinavelvild með einum eða öðrum hætti.  

Það sem er líka á næsta leyti er aukin sjálfvirknivæðing þegar kemur að innri ferlum hjá verslunum, s.s. vélmennaknúnar sjálfvirkar áfyllingar, rafrænir hillumiðar, lifandi auglýsingar, ríkari upplýsingagjöf með tilkomu verkfæra eins og Gagnalaugar, gervigreindar sem skoðar heit svæði í verslunum og miklu meira sem ekki gefst tími til að telja upp hér.  

Það er deginum ljósara að spennandi tímar eru framundan og með þeim fylgja miklar áskoranir fyrir smásöluaðila; breyttir tímar, fjölrása snertifletir (e. omnichannel) og aukin samkeppni spila þar stórar rullur. Síðast en ekki síst er kauphegðun sífellt að þróast, neytendur kjósa nú sífellt meiri þægindi, betri þjónustu og lipurð fram yfir það sem áður var. Það er nefnilega letin sem kennir lötum manni að kaupa.  

Um höfund 

Höfundur er Tómas Dan Jónsson, ráðgjafi á Viðskiptaþróunar- og ráðgjafasviði Þekkingar. Tómas er með tíu ára reynslu á upplýsingtæknisviði, fyrst sem tæknistjóri Icelandair hótel Reykjavík Natura, en hefur á síðastliðnum árum verið hluti af sterku teymi hjá Þekkingu sem sérhæfir sig í alhliða rekstri smásöluverslana á borð við Hagkaup, Samkaup, 66° Norður, Útilíf og Zara. Hann er með breiða þekkingu á ýmsum kassakerfum s.s. LS Retail, LS One, AX POS sem og bakendum þeim tengdum (AX 2012, og Navision). Auk þess hefur hann á síðustu tveimur árum unnið hörðum höndum að því að koma upp Gagnalaug, sem er alþjóðlegur miðlægur gagnagrunnur þar sem aðilar í aðfangakeðjunni geta skipst á vörugögnum á staðlaðan máta. Þessi staðall er þróaður og uppfærður af GS1.  

Hann er litríkur, jarðbundinn náungi sem talar 6 tungumál, spilar á gítar og syngur, hefur lifað í þremur mismunandi heimsálfum og elskar að ferðast í sínum frítíma.