Petya óværan

Enn eru að berast fréttir af óværum sem herja á tölvunotendur um allan heim. Núna gengur ný óværa, sem kölluð hefur verið Petya, yfir heiminn en er í raun að mestu endurvinnsla á gömlum þáttum.

Verið er að nota veikleika sem voru meðal annars notaðir í WannaCry óværunni sem var mikið í fréttum fyrir nokkrum vikum. Auk þess eru komnir inn nokkrir nýjir þættir sem ýta undir dreifingu á óværunni innan netkerfa þegar hún hefur náð fótfestu.

Þá er einnig munur að í stað þess að einstakar skrár séu dulritaðar þá reynir þessi að dulrita allan disk vélarinnar. Upp kemur gluggi um að vélin sé að reyna að lagfæra diskinn eftir einhver vandræði (CHKDSK) og að verið sé að reyna að bjarga skránum. Í raun er þar verið að dulrita diskinn og ættu þeir sem fá þennan glugga þess vegna að slökkva snarlega á vélinni, þrátt fyrir viðvaranir á skjánum um að gera það ekki.

Þessi óværa er svipuð þeim sem áður hafa komið og þeim sem munu koma síðar. Ráðin eru alltaf þau sömu. Kanna með afritun, muna að uppfæra reglulega og ef til þess kemur að sýking kemur upp þá er það ekki trygging á endurheimt gagna að borga lausnargjaldið. Einnig er mikilvægt að láta strax vita ef upp kemur sýking, enda getur það skipt miklu máli þegar kemur að því að takmarka frekar dreifingu óværunnar.

Vefsíðan okkar notar kökur til að bæta þína upplifun af vefnum. Lesa má persónuverndarstefnu Þekkingar hf. með því að smella hér.