Þekking á NRF 2018 Retail’s Big Show

Á hverju ári um miðjan janúar er haldin stærsta ráðstefna í verslunargeiranum í New York borg í Javits Center (78000 m2), með það að markmiði að sameina undir eitt þak í þrjá daga fólk og fyrirtæki tengdum verslunargeiranum á einn hátt eða annan. Við hjá Þekkingu eigum rætur okkar að rekja til verslunar þar sem við vorum stofnuð út frá upplýsingatæknideild KEA á sínum tíma og höfum haldið í þær rætur rækilega þar sem við þjónustum í dag marga af stærstu aðilum í verslunargeiranum hér á landi. Það er því við hæfi að við förum út á slíkar ráðstefnur og kynnum okkur strauma og stefnur í verslun og upplýsingatækni henni tengdri.

Í ár fóru þeir Árni Rúnar Karlsson (Sölu- og markaðsdeild), Jóhann Árni Helgason (Sviðsstjóri þjónustusviðs) og Tómas Dan Jónsson (sérfræðingur á sviði smásöluverslunar og ráðgjafi) fyrir hönd Þekkingar og voru á meðal þeirra 35000 gesta á sýningunni frá 107 löndum. Á sýningunni þetta árið voru samkomin 18 þúsund mismunandi verslanir, 7500 mismunandi fyrirtæki og rúmlega 600 sýningarbásar. Það kenndi ýmissa grasa þetta árið en meginþemað var tæknibyltingin sem verslanir nú til dags verða að tileinka sér hvort sem það þýðir inn í versluninni eða utan hennar (e. online/offline), ellegar deyja. Flestir eru sammála um að það hafi þó verið nokkrir frágangspunktar á ráðstefnunni sem verða útlistaðar hér:

Er smásöluverslun að deyja?

Hin hefðbundna hugmynd um búð á undir högg að sækja. Þessi hugmynd, „hugmyndin um að fara út í búð sem er áþreifanleg, með eða án innkaupalista, velja vörur ofan í körfu, vippa sér í röð, setja þær á færibandið, greiða fyrir þær, setja þær ofan í poka og koma þeim aftur heim,“ það er hún sem er að þróast. Alrásin (e. Omni-channel) hefur tekið völdin og gervigreindin aðstoðar hana. Nú má hugsa sér að söluferlið geti átt sér stað í vefverslun eða í snjalltækjum, verslunin og karfan verður bæði stafræn og áþreifanleg, þú ert alltaf fyrstur í röðinni, þú greiðir fyrir vörurnar rafrænt og þú ræður hvort þú setur í pokana, lætur setja í pokana og hvort þú sækir eða færð sent. Í öllu söluferlinu aðstoðar gervigreind síðan við að koma t.d. með betri uppástungur, lifandi tilboð, fylgist með hversu lengi hver vara er í skoðun hjá þér, kemur með tillögur að sambærilegri vöru og svona mætti lengi halda áfram. Verslanir nú til dags verða að aðlaga sig að nýrri kynslóð viðskiptavina sem sjá engan greinarmun á því að versla við kaupmanninn á horninu og við kaupmanninn á netinu, þetta er bara kaupmaðurinn fyrir þau.

Viðskiptavinurinn er (að)alrásin

Í stað þess að horfa á alrásirnar og greina hvaða rásir eru mikilvægastar var mikil áhersla lögð á það á ráðstefnunni að viðskiptavinurinn er aðalrásin, og þegar verslanir ná að fara fram úr væntingum hans eða hennar þá ná þær árangri. Viðskiptavinurinn hugsar nefnilega ekki í rásum, hann hugsar um þarfir. Hann veit hvað hann þarf, og verslunin þarf helst að vita líka hvað hann þarf áður en hann kemur til þeirra. Þetta þýðir að öll sölurásin þarf að vera meðvitað um þarfir neytandans svo að það verði ekki brot í ferlinu. Öll þessi þekking og mynstur er eitthvað sem mannsheilinn á erfitt með að greina sjálft og því mikil þörf á gervigreind í þessu samhengi og var einnig mikil áhersla lögð á hana.

Gervigreind

Það var gerð könnun meðal ráðstefnugesta á Twitter, um það hvaða hluti þeir væru hræddir og spenntir fyrir á sama tíma á ráðstefnunni og rúmlega 1/3 svarenda nefndi gervigreind og fast á hæla þess kom hlutanetið (e. Internet of things). Það sem hræddi mig enn meira er sú staðreynd að gervigreindin getur lært heilmikið um mig og þig sem neytanda á upplýsingum sem hlutanetið getur skaffað því og á sama tíma getur hlutanetið notfært sér upplýsingar sem gervigreindin er búin að greina um mig. Nú veltur það mikið á verslunum hvernig þeir nýta og notfæra sér þær upplýsingar sem gervigreindin getur útvegað þeim en eitt er víst að vilji þær verða ofan á og samkeppnisfær verða þau að tileinka sér þessa tækni.

Önnur tækni

Það væri ómögulegt að reyna að telja upp allt sem fyrir augu okkar bar á sýningunni í þessum pistli en þó fannst okkur vert að nefna eitthvað af því sem okkur fannst áhugavert á sýningunni hvað varðar tækni.

Sjálfsafgreiðslulausnir

Enn er mikið verið að hugsa um þetta og ekkert lát var á því í ár. Þróunin á þessum markaði hefur verið að aukast með tilkomu betri myndavéla, RFID tækni, hlutaskanna og svona mætti lengi telja.

Stafræn merking (e. Digital Signage)

Með tilkomu stærri og ódýrari skjái, hefur vægi skjáa í verslunum sem sýna stórar og grípandi auglýsingar orðið meiri, í von um að grípa athygli neytandans. Á sýningunni í ár var mikið um slíkar lausnir og voru þær einhverjum tilvikum að nýta sér utanaðkomandi upplýsingar um t.d. veðurfar eða þjóðerni þegar að kom að því að birta hnitmiðaðar auglýsingar í rauntíma. Rafrænir hillumiðar og aðrar lausnir sem gerði starfsfólki auðveldara að vinna voru einnig hluti af þessum stafrænu merkingum.

RFID/NFC

RFID tækni og NFC var áhugavert að sjá þar sem verið var að nota þær í margvíslegum tilgangi. Allt frá því að halda utan um lagerstöðu og áfyllingar í það að geta sannreynt að vara væri ósvikin. Margir voru sammála um að RFID eigi einhvern tímann eftir að geta leyst af strikamerkin en mikið vatn á eftir að renna til sjávar áður en hún nær yfirhendinni.

Lokaorð

Þó svo að engar stórar nýjungar hafi komið fram á ráðstefnunni/sýningunni í ár þá er mikilvægt að fá tilfinningu fyrir því hvar smásölumarkaðurinn stendur og einnig hvar smásölumarkaðurinn á Íslandi stendur í tilliti til hins stóra heims og alltaf athyglisvert í raun hversu lítið Ísland er í því samhengi. Það er líka gott að fá heildarmynd af þeim möguleikum sem standa íslenskri smásöluverslun til boða og hversu mikið við eigum inni. Framtíðin er spennandi og við ætlum að taka þátt í henni!

Tómas Dan Jónsson

Þjónustusvið

Vettvangur

460 3110

tomas(hjá)thekking.is

Vefsíðan okkar notar kökur til að bæta þína upplifun af vefnum. Lesa má persónuverndarstefnu Þekkingar hf. með því að smella hér.